Hver á sér fegra föðurland?

Heil og sæl.

Í dag langaði mig að deila með ykkur nokkru merkilegu og því sem ég er einna stoltust af á mínum skáldaferli. Árið 1944 ákvað ég að taka þátt í ljóðasamkeppni sem haldin var í tilefni stofnunar íslenska lýðveldisins á Þingvöllum. Ég samdi og sendi inn ljóð sem fékk nafnið Hver á sér fegra föðurland?. Er skemmst frá því að segja að ég kom, sá og sigraði þá keppni ásamt Jóhannesi úr Kötlum. Hann sendi inn ljóðið Land míns föður (Ljóð og laust mál úrval, bls. 19).

Þegar ég var að vafra um netið á daginn vildi svo skemmtilega til að ég rakst á kór einn syngja ljóðið mitt og mikið þótti mér nú vænt um það. Þetta ljóð mitt hefur greinilega lifað með fólkinu og það hlýtur að vera takmark allra skálda.  Ég læt linkinn fylgja ásamt texta: https://www.youtube.com/watch?v=f3vmgjXBJfs

Hver á sér fegra föðurland?

Hver á sér fegra föðurland,
með fjöll og dal og bláan sand,
með norðurljósa bjarmaband
og björk og lind í hlíð?
Með friðsæl býli, ljós og ljóð,
svo langt frá heimsins vígaslóð.
Geym, drottinn, okkar dýra land
er duna jarðarstríð.

Hver á sér meðal þjóða þjóð,
er þekkir hvorki sverð né blóð
en lifir sæl við ást og óð
og auð, sem friðsæld gaf?
Við heita brunna, hreinan blæ
og hátign jökla, bláan sæ,
hún uni grandvör, farsæl, fróð
og frjáls – við ysta haf.

Ó, Ísland, fagra ættarbyggð,
um eilífð sé þín gæfa tryggð,
öll grimmd frá þinni ströndu styggð
og stöðugt allt þitt ráð.
Hver dagur liti dáð á ný,
hver draumur rætist verkum í
svo verði Íslands ástkær byggð
ei öðrum þjóðum háð
Svo aldrei framar Íslands byggð
sé öðrum þjóðum háð.

Það er óhætt að segja að þetta ljóð var ólíkt öðrum ljóðum sem ég samdi. Yfir því er stríðsblær enda samið þegar heimstyrjöldin seinni var að líða undir lok. Í ljóðinu lýsi ég landinu okkar, fallega og hreina, og hversu gott er að búa á Íslandi, þar sem við erum óhult fyrir blóðbaðinu sem var í gangi annars staðar í heiminum á stríðstímunum. Ég lýsi auðlindum landsins og andstæðum þess, eldi og ís. Þjóðerniskenndin kemur sterk fram og ást á landinu okkar og einlæg von um að Íslendingum beri sú gæfa að ráða sér sjálfir og verði ekki öðrum háðir.

Ykkar einlæg,

Hulda.

Ljáðu mér vængi

Blessuð og sæl.

Ég upplifði mig alltaf svolítið öðruvísi en samferðaskáld mín. Ég var t.d. kona fyrir það fyrsta. Það sem einkenndi flest mín ljóð var sár togstreitan á milli lífs og langana ef svo má að orði komast. Ég held ég geti með sanni sagt að ljóðin mín voru oft og tíðum ástríðufull og komu alltaf beint frá hjartanu. Þau fjölluðu oftar en ekki um mína innstu drauma og þrár. Einnig voru andstæðurnar frelsi og öryggi áberandi yrkisefni mín.  Ég hélt líka mikið upp á þuluformið eins og sjá má í verkum mínum. Ég læt hér fylgja með eitt af mínum uppáhaldsljóðum sem endurspeglar ofantalið að mínu mati.

Ljáðu mér vængi
„Grágæsa móðir!
ljáðu mér vængi“,
svo ég geti svifið
suður yfir höf.
Bliknuð hallast blóm í gröf,
byrgja ljósið skugga tröf;
ein ég hlýt að eiga töf
eftir á köldum ströndum,
ein ég stend á auðum sumarströndum.
Langt í burt ég líða vil,
ljá mér samfylgd þína!
Enga vængi á ég til
utan löngun mína,
utan þrá og æskulöngun mína.
Lof mér við þitt létta fley
lítið far að binda;
brimhvít höf ég óttast ei
eða stóra vinda.
Okkar bíður blómleg ey
bak við sund og tinda,
bak við sæ og silfurhvíta tinda.
Eftir mér hún ekki beið, –
yst við drangann háa
sá ég hvar hún leið og leið
langt í geiminn bláa,
langt í geiminn vegalausa, bláa.

Hér er hægt að hlusta á flutning á lagi sem gert var eftir ljóðið Ljáðu mér vængi: https://www.youtube.com/watch?v=RV6UvMJmcHU

Ljóðið ljáðu mér vængi var einmitt skrifað í anda nýrómantíkurinnar. Þar segi ég frá draumum mínum og þrám um eitthvað annað og meira. Mig langaði að gera og upplifa margt en þar sem ég var kona á 19. öld voru möguleikar mínir til þess mjög takmarkaðir. Mig dreymdi alltaf um að komast í burt en húsmóðurstarfið var það sem mér var ætlað eins og flestum öðrum konum á þessum tíma. Fuglinn í ljóðinu er táknmynd frelsisins því fuglinn er fleygur og getur alltaf flogið burt. En hér var ég sjálf föst og gat hvergi farið. Í ljóðinu lýsi ég því hvernig fuglinn tekur á flug burt úr dimmunni og inn í ljósið. Það átti að sýna fram á hvað lífið yrði betra ef ég gæti flogið í burt og farið eitthvert annað eins og fuglinn. Ævintýraþrá mín í þessu ljóði skín í gegn og óttast ég ekki neitt.

Ykkar einlæg,

Hulda.

 

Nýrómantíkin

Sæl enn og aftur

Mig langaði aðeins að minnast á uppáhaldsbókmenntastefnuna mína en það var að sjálfsögðu nýrómantíkin. Ég vil nú ekkert vera að monta mig en staðreyndin er að enn þann dag í dag er ég talin vera einn af frumkvöðlum þeirrar stefnu ;). Helstu viðfangsefni okkar sem skrifuðum í anda nýrómantíkinnar voru frelsi einstaklingsins, ofurmenni eða snilligáfa og tilvist okkar svo eitthvað sé nefnt. Þá voru tilfinningasveiflur oft óheftar og miklar í verkum nýrómantíkurinnar og endurspegluðu tilgangsleysi, ást, söknuð, sorg, þunglyndi, drauma og þannig gæti ég lengi talið. Eins og nafnið á stefnunni sjálfri gefur til kynna var rómantíkin ennþá í forgangi og eins kom þjóðernishyggjan sterkari fram en áður. Mikil áhersla var einnig lögð á tákn og var ljóðmálið endurnýjað og mun fágaðra heldur en það hafði verið í rómantískustefnunni sem var vinsæl fyrir tíma nýrómantíkinnar.

Ykkar einlæg,

Hulda.

Mín helstu verk

Komið þið sæl

Í dag langaði mig að segja ykkur frá skáldaferli mínum. Ég byrjaði mjög ung að leika mér að því að yrkja en á árunum 1904-5 birti ég opinberlega mín fyrstu ljóð. Ég ætla ekki að ljúga að ykkur, ég var virkilega stressuð að opinbera verk mín svona þar sem ég hafði aldrei gert neitt slíkt fyrr. Það voru líka ekki margar konur sem voru að yrkja og semja ljóð og sögur á þessum tíma, að minnsta kosti  ekki opinberlega. Þannig að ég var að stíga stórt skref út fyrir þægindarammann. Því var það úr að ég ákvað að skrifa og birta verk mín undir dulnefni og allt sem kom út eftir mig var undir skáldanafninu Hulda. En viti menn, ljóðin mín vöktu heilmikla athygli og eftir þetta lá leiðin bara upp á við. Ég fékk m.a. jákvæð viðbrögð annarra skálda. Til dæmis orti ekki ómerkari maður en Einar Benediktsson til mín ljóð þar sem hann kallaði mig „dalasvanna“ og Þorsteinn Erlingsson ritaði grein sem hann nefndi Hulduspegil í Þjóðviljann þar sem hann fór lofsamlegum orðum um verkin mín. Ég hélt áfram að skrifa og semja í gríð og erg. Ég skrifaði nokkuð margar ljóðabækur og eru þetta þær helstu:

  • Kvæði (1909)
  • Syngi, syngi svanir mínir (1916)
  • Segðu mér að sunnan (1920)
  • Við ysta haf (1926)
  • Þú hlustar Vár (1933)
  • Söngur starfsins (1946)
  • Svo líða tregar (1951)

Einnig skrifaði ég líka nokkrar sögur:

  • Æskuástir I og II (1915 og 1919)
  • Myndir (1924)

 

Ykkar einlæg,

Hulda.

Ég um mig frá mér til mín…

153424_aKomið þið sæl og blessuð.

Ég hét Unnur Benediktsdóttir Bjarklind en kaus að vera kölluð Hulda, að minnsta kosti var ég þekkt af verkum mínum undir því nafni. Ég var fædd og uppalin á Auðnum í Laxárdal í Suður-Þingeyjarsýslu en fæðingardagur minn var þann 6. ágúst 1881. Pabbi minn var hann Benedikt Jónsson en hann var bæði bóndi og hreppstjóri á Auðnum. Hann gerðist síðan seinna meir bókavörður í Húsavík. Mamma mín hét Guðný Halldórsdóttir. Hún var listfeng og las mikið af bókum. Blessuð sé minning þeirra. Ég átti ég fjórar systur og tvær þeirra ortu ljóð og kvæði eins og ég.

Á mínum yngri árum var ég í einkakennslu heima á Auðnum en þegar ég var um tvítugt flutti ég loks að heiman til Akureyrar. Þar lagði ég stund á hússtjórn og hannyrðir. Veturinn 1904-5 fluttist ég svo til Reykjavíkur til frekara náms og lærði erlend tungumál. Þar kynntist ég ágætum dreng, honum Sigurði mínum, sem átti síðar eftir að verða eiginmaður minn.Við tókum okkur ættarnafnið Bjarklind. Við giftum okkur árið 1905. Við eignuðumst fjögur börn saman en það fyrsta fæddist andvana. Eins og ghulda_hja_solefur að skilja tók það á og var mikið áfall og mótaði mig m.a. í kveðskap mínum.

Í mér blundaði alltaf mikil ævintýraþrá og útrás. Ég ferðaðist mikið um Evrópu og kom víða við, heimsótti söfn og kynnti mér þjóðhætti og rithöfunda. Frá 1906 bjuggum við Sigurður á Húsavík og þar var mjög gestkvæmt. Reyndum við hjónin alltaf að gera vel við bæði gesti okkar og gangandi. Síðar meir fluttumst við til Reykjavíkur en þegar þangað var komið var ég orðin mikið veik. Eftir langa og erfiða baráttu við veikindi þurfti ég að játa mig sigraða. Þann 10. apríl 1946 lést ég, en þá hafði ég lifað 65 góð ár.

Nú finnst ykkur lesendur góðir eflaust undarlegt í meira lagi að lesa hér blogg eftir látna konu. En árið 2016 er allt hægt með góðri aðstoð og fleiri tækifæri til að láta drauma sína rætast en þegar ég var upp á mitt besta. Mig langaði því að nýta þennan vettvang og segja ykkur örlítið frá mér.

Ykkar einlæg,

Hulda.